Nánar

Stærstu hlutar vélarsamstæðu eitt komnir upp á Þeistareykjum

March 2, 2017

Rafal, hverfli og eimsvala var endanlega komið fyrir á vélarundirstöðum Þeistareykjavirkjunar á dögunum. Um var að ræða umfangsmiklar hífingar til að koma vélhlutunum fyrir, en til þess voru notaðir tveir kranar, 250 tonna og 300 tonna og sami flutningsvagn og flutti búnaðinn til Þeistareykja í desember.

Í desember kom rafall og hverfill fyrir fyrstu vélasamstæðuna Þeistareykjavirkjunar á verkstað. Nokkru fyrr hafði eimsvali komið á svæðið. Rafal og hverfli var komið fyrir í geymslu í vélarsal Þeistareykjavirkjunar og eimsvala fyrir utan til bráðabirgða. Frá því hefur verið unnið að undirbúningi á undirstöðum og uppsetningar á vélahlutum og rafal, hverfli og eimsvala komið fyrir á undirstöðunum um síðustu helgi.

Föstudagskvöldið 24. febrúar var rafallinn færður á sinn stað. Fyrst var tveimur krönum stillt upp sem færðu rafalann nær undirstöðu, en var svo minni kraninn nýttur til að hífa rafalann sem er um 95 tonn upp á vélarundirstöðuna og á sinn stað. Laugardaginn 25. febrúar var svo komið af hverflinum sjálfum en hann eru um 112 tonn. Tveimur krönum var stillt upp og báðir voru nýttir til að hífa hverfilinn á undirstöðu. Sunnudaginn 26. febrúar var eimsvali færður inn í stöðvarhús þar var hann geymdur í einn dag til að aðlagast hita í stöðvarhúsi. Mánudaginn 27. febrúar var eimsvali loks hífður á undirstöðu. Meðfylgjandi myndir eru frá hífingum á rafala, hverfli og eimsvala.

Er því búið að koma fyrir þessum stærstu vélarhlutum fyrir vélarsamstæðu eitt.

Stór áfangi í verkinu

Um er að ræða stóran áfanga í verkinu, en í framhaldinu verður unnið að uppsetningu minni búnaðar og tengingum. Stefnt er því að prófanir á vélasamstæðu eitt hefjist upp úr miðjum ágúst og að formlegur rekstur hefjist í byrjun desember.

Hverfill og rafall fyrir vélasamstæðu tvö lögðu af stað til Íslands frá Japan föstudaginn 24. febrúar og búist er við að þeir komi til landsins í maí. Eimsvali fyrir vélasamstæðu tvö kemur í seinnihluta mars.

News archive Print page

Fréttasafn

Fréttir