Nánar

Tilboða leitað í vélasamstæður fyrir Þeistareykjavirkjun

March 18, 2014

Landsvirkjun hefur ákveðið að leita tilboða í 45 MW vélasamstæðu og tilheyrandi búnað fyrir jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum með valrétti um kaup á viðbótarvélbúnaði fyrir allt að 90 MW virkjun. Útboð þessa efnis verður auglýst á næstu dögum.

Í samræmi við stefnu Landsvirkjunar um ábyrga nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa hefur verið stefnt að frekari uppbyggingu jarðvarmavinnslu fyrirtækisins á Norðausturlandi og eru Þeistareykir sá kostur sem nú er horft til.  Frá því að rannsóknarboranir hófust á Þeistareykjum árið 2002 hefur verið staðið að umfangsmiklum rannsóknum og vöktun á svæðinu. Allur undirbúningur virkjunar er í samræmi við úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá október 2010. Útboðshönnun á allt að 90 MW jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum liggur nú fyrir.

Á Þeistareykjum hefur þegar verið aflað gufu til raforkuvinnslu sem samsvarar um 50 MW.

Aukið framboð raforku á Norðausturlandi er forsenda fyrir frekari uppbyggingu iðnfyrirtækja á svæðinu. Spá Landsvirkjunar um orkunotkun á Norðausturlandi gerir almennt ráð fyrir aukinni raforkunotkun þar á næstu árum óháð sérstakri uppbyggingu á nýrri iðnaðarframleiðslu á Bakka.

Undanfarin ár hefur verið unnið að vegaframkvæmdum, aðstöðusköpun og rafvæðingu á svæðinu. Áfram verður unnið að undirbúningsframkvæmdum en þær lúta einkum að jarðvinnu á fyrirhuguðum stöðvarhússreit og lagningu vatnsveitu.  Ráðgert er að auglýsa útboð þessa efnis á næstunni.

Nánar um Þeistareykjavirkjun á vef Landsvirkjunar

News archive Print page

Fréttasafn

Fréttir