Nánar

Vélarhlutar vélasamstæðu tvö komnir á Þeistareyki

May 1, 2017

Síðastliðinn desember fór ein þyngsta vagnlest sem farið hefur um þjóðvegi landsins frá Húsavík að Þeistareykjum, með hverfil og rafal fyrir fyrstu vélasamstæðu Þeistareykjavirkjunar. Heildarþyngd vagnlestarinnar með aðstoðardráttarbílum í þyngsta flutninginum var um 220 tonn. Nú um helgina var farið í sambærilega flutninga þegar stærstu vélarhlutar fyrir vélasamstæðu tvö voru fluttir sömu leið. Sem fyrr gengu flutningarnir mjög vel.

Frá Japan í lok febrúar

Fimmtudagskvöldið 27. apríl lagði flutningaskipið Skaftafell að Húsavíkurhöfn með eimsvala vélasamstæðu tvö. Eimsvalinn var fluttur frá Rotterdam og vegur um 80 tonn. Aðfaranótt föstudagsins 28. apríl var eimsvalinn fluttur til Þeistareykja með einum dráttarbíl. Eftir hádegi á föstudeginum var eimsvalanum komið fyrir utan við stöðvarhúsið þar sem hann verður geymdur uns tilbúið verður að hífa hann á undirstöður. Mynd 1 hér fyrir ofan sýnir eimsvalann þar sem verið er að hífa hann á geymslusvæði utan við stöðvarhús Þeistareykjavirkjunar.

Laugardagsmorguninn 29. apríl lagði flutningaskipið BBC Kansas að Húsavíkurhöfn með hverfil og rafal vélasamstæðu tvö. Skipið lagði af stað með búnaðinn frá Yokohama í Japan í lok febrúar og sigldi til vesturstrandar Bandaríkjanna áður en það sigldi til suðurs og í gegnum Panamaskurðinn á leið sinni til Húsavíkur. Hverfillinn er um 134 tonn og rafallinn um 100 tonn.

Hverfillinn var fluttur til Þeistareykja síðdegis á laugardeginum en rafallinn var fluttur sunnudagsmorguninn 30. apríl. Þrír dráttarbílar voru notaðir fyrir flutninginn á hverflinum, tveir toguðu í flutningsvagninn og einn ýtti á eftir. Tveir dráttabílar voru notaðir fyrir flutninginn á rafalnum, annar togaði og hinn ýtti á eftir. Flutningsvagninn er tólf hásinga með alls 96 dekk. Heildarþyngd vagnlestar með aðstoðardráttarbílum var sem fyrr segir um 220 tonn en farmurinn sjálfur 197 tonn. Hverfli og rafal var komið fyrir inni í stöðvarhúsi þar sem búnaðurinn verður geymdur þar til honum verður komið fyrir á undirstöðum. Mynd 2 sýnir þar sem verið er að hífa hverfilinn frá borði við Húsavíkurhöfn og mynd 3 sýnir þar sem rafallinn er fluttur í gegnum Húsavík.

Samstæða tvö hífð á undirstöður í júní

Vélarsamstæða eitt var hífð á undirstöður í lok febrúar og hefur síðan þá verið unnið við uppsetningu og tengingar. Áætlað er að hífa vélarsamstæðu tvö á sinn stað í júní og mun þá vinna við tengingar hefjast og vinnast samhliða vélasamstæðu eitt. Áætlað er að vélasamstæða eitt verði komin í rekstur í byrjun desember á þessu ári og vélasamstæða 2 verði komin í rekstur á fyrri hluta árs 2018.

Frekari þungaflutningar verða í maí þegar spennar koma til Þeistareykjavirkjunar, en þeir eru að leggja af stað sjóleiðina frá Rotterdam.

Hér má sjá myndband sem gert var í tengslum við flutning vélasamstæðu eitt í lok desember.

News archive Print page

Fréttasafn

Fréttir